Dvergkrákur, sem fundust dauðar á víðavangi í bænum Falköping í Svíþjóð í gærmorgun, voru með áverka en virðast ekki hafa verið sjúkar eða orðið fyrir eitrun. Alls fundust á milli 50 og 100 fuglar dauðir í bænum.
Fimm af fuglunum voru krufðir í gær og upplýsingafulltrúi sænska yfirdýralæknisins segir, að líklega hafi fuglarnir fælst um nóttina, flogið um í blindni og lent á trjám eða öðrum hlutum.
Anders Wirdheim, fuglafræðingur, segir að dvergkrákur séu oft í stórum hópum á nóttinni. Ef þær fælist geti allt að 100 fuglar flogið upp samtímis.
Fréttir af dauðum fuglum hafa birst síðustu daga. Yfirvöld í Arkansas rannsaka hvers vegna um 5000 dauðir rauðaxlastarlar féllu til jarðar í bænum Beebe og í Pointe Coupee í Louisiana fundust um 500 dauðir fuglar. Einnig fundust allt að 100.000 dauðir fiskar í Arkansasfljóti um 160 km frá Beebe. Ekki er talið víst að tengsl séu á milli dauða fuglanna og fiskanna.