Þegar Kasiem, 55 ára kona frá Indónesíu, var dæmd til sjö mánaða fangelsisvistar hugsaði hún sem svo að hún vildi helst ekki fara í fangelsi. Hún leysti málið með því að ráða aðra konu til að fara í fangelsi í staðinn fyrir sig.
Kona að nafni Karni fékk um 130 þúsund ísl. kr. fyrir að sitja af sér dóm Kasiem. Þegar nágrannakona Kasiem ætlaði að heimsækja hana í fangelsi komust skiptin upp og daginn eftir var Kasiem fangelsuð. Til stendur að ákæra Karni fyrir sinn þátt í málinu.
Töluverð spilling ríkir í fangelsismálum Indónesíu og er þetta ekki fyrsta dæmið um að manneskju sé borgað fyrir að taka út refsingu annars. Almenningur kallar eftir bótum. Betur sé fylgst með föngum og reynt að uppræta mútuþægni en ein ástæða þess að fólk, yfirleitt mjög auðugt, getur sloppið við refsingar eða lifað lúxuslífi í fangelsum Indónesíu er sú að oft reynist auðvelt að múta lögregluþjónum, saksóknurum, fangavörðum og jafnvel dómurum.
Nýverið kom í ljós að auðugur fangi gat farið í og úr fangelsinu að vild. Til hans sást á tennismóti á eynni Bali og er talið að níu lögregluþjónar hafi þegið mútur að upphæð 80-800 þúsund kr. til að veita honum þetta frjálsræði.
Þá var athafnakonan Artalyta Suryani, sem var dæmd í fangelsi árið 2009 fyrir að múta saksókurum, í snyrtimeðferð í klefanum sínum þegar opinberir starfsmenn mættu í skyndiskoðun. Í ljós kom að í klefanum hennar, sem var 64 fm að stærð, var loftkæling, stórt rúm, flatskjár, ísskápur, sérbaðherbergi og leikherbergi fyrir börn.