Patricia Kirtlesy, fyrrverandi eiginkona Ted Williams, betlarans með gullnu röddina, er hetjan í harmsögu betlarans. Þegar Williams stakk af til geta drukkið og dópað, tók hún að sér að ala upp börn þeirra og tók þar að auki að sér barn sem hann átti með annarri konu. Þess má geta að Kirtley er hálfblind.
Ted Williams, betlari frá Columbus í Ohio, hefur slegið í gegn á Youtube. Líf hans hefur gjörbreyst á örskömmum tíma. Í stað þess að ganga um göturnar betlandi er hann kominn með vinnu og hefur komið fram á morgunþætti NBC. Allt á hann þetta röddinni að þakka.
Willams er 53 ára gamall og starfaði á árum áður á útvarpsstöð. Árið 1993 missti hann fótana þegar áfengi og fíkniefni tóku stjórnina í lífi hans. Hann missti vinnuna og húsnæði og hefur síðan betlað á götum úti. Hann gekk gjarnan um með skilti þar sem á stóð að guð hefði gefið sér einstaka rödd.
Blaðamenn frá Columbus stoppuðu hjá honum og báðu hann að segja eitthvað sem sannaði að hann hefði einstaka rödd. Hann svaraði af bragði með sinni silkimjúku útvarpsrödd. Myndbandið rataði á Youtube þar sem um 12 milljónir manna skoðuðu það á innan við þremur dögum.
Líf Willams hefur nú tekið stakka skiptum. Honum hefur verið boðin vinna og hann hefur komið fram í morgunþætti NBC þar sem hann sagði frá lífi sínu. Hann segir að hann hafi beðið guð um að gefa sér annað tækifæri og sérstaklega að móðir sín mætti lifa þann dag að sjá hann vera í vinnu. Guð hafi bænheyrt sig. Hann segist vera búinn að yfirvinna áfengissýkina. Hann segir að þó að hann hafi misst margt meðan hann betlaði hafi hann alltaf átt röddina. Hún hafi í reynd verið það eina sem hann átti eftir.
Fjölmiðlar hafa velt sér upp úr sögu Williams og m.a. bent á að hetjan í sögu hans sé Patricia Kirtley, fyrrverandi kona hans. Hún hafi alið upp fjórar dætur hans eftir að hann yfirgaf heimilið fyrir 23 árum. Og ekki nóg með það heldur hafi hún tekið að sér dreng sem hann átti með annari konu sem einnig var í fíkniefnaneyslu, en þau höfðu annað hvort ekki áhuga eða getu til að sinna drengnum.
„Við lifðum þetta af,“ sagði Kirtley samtali við NYDailyNews.com, en hún hefur svo slæma sjón að hún getur ekki ekið bíl.