Ofurhetjan Phoenix Jones var nefbrotin um helgina þegar hún reyndi að stöðva slagsmál sem voru í uppsiglingu. Jones hefur vakið mikla athygli upp á síðkastið fyrir að sinna hlutverki ofurhetju Seattle-borgar í Bandaríkjunum, en ofurhetjur hafa hingað til eingöngu átt heima í myndasögum og kvikmyndum.
Tveir menn réðust á Jones með áðurgreindum afleiðingum. „Þeir voru að þræta og við það að fara að slást,“ segir Jones. Hann blandaði sér í málin og reyndi að stöðva mennina.
Jones sagði mönnunum að hann hefði hringt í neyðarlínuna og greip annan þeirra höfuðtaki. Þá dró hinn maðurinn upp byssu. „Hann hóf að sveifla höndum og byrjaði að slást við mig,“ segir Jones.
Phoenix Jones gengur grímuklæddur um stræti Seattle-borgar á kvöldin og berst gegn glæpum. Hann er klæddur í svartan og gulllitaðan búning og er gjarnan með skikkju og hatt á höfði. Hann kveðst vera leiðtogi sérstakrar ofurhetju-hreyfingar, sem nefnist „Ofurhetjur rigningarborgarinnar“ - sem er einmitt viðurnefni Seattle-borgar.
Atburðir helgarinnar eru að sögn lögreglu einmitt það sem hún hefur áhyggjur af þegar borgarar taka lögin í sínar hendur. Jones gefur lítið fyrir þær. Hann segist ætíð hringja í lögregluna áður en hann fer út á kvöldin og segi þeim hvert hann hyggist fara. Hann kveðst þjálfa sig sérstaklega fyrir hættulegar aðstæður eins og þær sem hann lenti í um helgina.