Fyrir 23 árum fór Joy White með þriggja vikna gamla dóttur sína, Carlinu, á sjúkrahús í Harlem í New-York borg vegna veikinda. Þegar þangað var komið var litla stúlkan lögð inn og White fór heim til að hvílast. Þegar hún svo snéri aftur á sjúkrahúsið var dóttirin horfin.
Árin liðu og ekkert spurðist af dótturinni fyrr en White fékk símhringingu þann 4. janúar síðastliðinn. Konan sem hringdi var Carlina, sem sendi White mynd af sér ungri. White þótti myndin af barninu svipa til myndar sem hún átti af dóttur sinni. Lögreglan í New-York var sama sinnis og var ákveðið að framkvæma DNA-próf sem staðfesti að um dóttur White var að ræða.
Carlina hafði lengi haft á tilfinningunni að fjölskyldan sem ól hana upp væri ekki öll þar sem hún var séð. Þegar móðir Carlinu gat ekki fundið fæðingarvottorðið hennar ákvað Carlina að grennslast fyrir um málið. Hún notaði veraldarvefinn til þessa og rakst á sögu af lítilli stelpu sem rænt var af spítala á því ári sem hún fæddist. Hún komst í samband við lögregluyfirvöld sem hjálpuðu henni við að komast í samband við sína réttu fjölskyldu. lögreglan hefur ekki viljað tjá sig neitt um konuna sem rændi Carlinu.
Carlina hitti foreldra sína, hálfsystur og fleiri ættingja í fyrsta sinn á föstudaginn. „Ég gaf aldrei upp vonina,“ sagði amma Carlinu í samtali við WABC-sjónvarpsstöðina og bætti við: „Það er eins og hún hafi verið með okkur allt sitt líf. Hún var ekki ókunnug. Hún féll strax inn hjá okkur.“