Dularfull hljóð heyrast nú úr maga krókódílsins Genu, sem býr í dýragarði í Dnipropetrovsk í Úkraínu. Krókódíllinn gleypti nefnilega farsíma, sem gestur í garðinum missti þegar hann var að reyna að taka myndir af Genu.
Starfsfólk dýragarðsins hefur áhyggjur af krókódílnum því hann hefur lítið sem ekkert étið eftir að hann gleypti símann í desember og syndir mun minna en áður.
Starfsfólkið vildi ekki trúa konu, sem sagðist hafa séð á eftir símanum upp í ginið á krókódílnum þar til hringingar heyrðust úr maga dýrsins.
Yfirdýralæknir dýragarðsins segir, að röntgenmyndir verði teknar af Genu í næstu viku og hugsanlega þurfi að skera dýrið upp.
Eigandi símans segist gjarnan vilja endurheimta hann vegna þess að í honum séu símanúmer og myndir.