Bandaríkjamaðurinn John Wade Agan, sem sjálfur telur sig geta verið óheppnasta mann veraldar, liggur á sjúkrahúsi í Tampa eftir að hafa orðið fyrir eldingu. Raunar hafa efasemdaraddir heyrst um meinta óheppni Agan og er því ekki staðfest að um eldingu hafi verið að ræða.
Fyrir fjórum árum síðan tilkynnti Agan lögreglu að hann hefði verið rændur í leigubíl sínum, hann laminn og á endanum troðið í farangursrými bílsins. Fyrir þremur árum ók hann að slökkvistöð með stóran eldhúshníf í brjóstkassanum. Og fyrir tveimur árum sagðist Agan hafa verið bitinn af tveimur snákum á sama tíma. Það var þá sem menn fóru að efast um sannsögli Agans.
Sjálfur segir Agan sem er 47 ára að honum standi á sama hvað aðrir segja, en meðal þess er að hann skaði sjálfan sig til að fá sterk verkalyf. Staðreyndin er sú að erfitt er að staðfesta hvort hann sé að segja satt eða ekki. Hvort sem er ætlar Agan að sækja eftir styrk frá yfirvöldum til að greiða fyrir sjúkrakostnað.
Hvað viðkemur eldingunni segist Agan hafa staðið við eldhúsvask á heimili sínu og talað í símann þegar hann heyrði háan hvell og missti meðvitund. Þegar hann vaknaði stóðu yfir honum sjúkraliðar. Óveður gekk yfir svæðið þegar slysið varð. Dóttir hans stóð skammt frá og sá föðust sinn falla til jarðar.
Sérfræðingur sem dagblaðið St. Petersburg Times ræddi við segir ómögulegt að segja til um hvort Agan hafi orðið fyrir eldingu. Ekki sé á honum að sjá að hann hafi brennst en það eigi hvort eð er sjaldnast við þegar menn verða fyrir eldingu.
Allt er því enn á huldu hvort John Wade Agan sé óheppnasti maður veraldar.