Vonir breskra stjórnvalda um að hið konunglega brúðkaup sem í vændum er hafi jákvæð árif á hagkerfið virðast ætla að ganga eftir. Minjagripir af öllum gerðum eru nú framleiddir með myndum af parinu hamingjusama, en nýjasta útspilið í þeim efnum er konunglegir smokkar frá framleiðanda sem hvetur elskendur til að „leggjast aftur og hugsa um England".
Smokkaframleiðandinn „Einstök krúnudjásn" (e. Crown Jewels Condoms of Distinction) hefur sett á markað hátíðarsmokka með slagorðinu: „Rétt eins og konunglegt brúðkaup eru samfarir með elskunni þinni ógleymanlegt tilefni". Gagnrýnendur segja smokkana ósmekklega en framleiðandinn býst við góðri sölu. Þegar hafa verið framleiddir minjagripir svo sem þvottaklútar, postulínsbollar og póstkort með glansmyndum af konungshjónunum tilvonandi en talsmaður Einstakra krúnudjásna, Hugh Pomfret, segir að smokkarnir séu „einstök leið til að minnast þessarar frábæru stundar í bresku þjóðlífi".
Smokkaumbúðirnar eru í hinum konunglegu litum, fjólubláum og gyltum, og á hverjum pakka er mynd af Vilhjálmi og unnustu hans Kate Middleton þar sem þau stara hvort í annars augu geislandi af hamingju. Smokkarnir eru auk þess sagðir „ríkulega smurðir" og „konunglega rifflaðir".
Talsmenn hirðarinnar í Buckingham Palace vilja ekki tjá sig um smokkana.