Maður nokkur í Fredriksberg í Kaupmannahöfn hringdi í gær í lögregluna og kvartaði yfir því að eiginkonan vildi ekki leyfa honum að horfa á úrslitaleik heimsmeistaramótsins í handknattleik í friði. Danir öttu þar kappi við Frakka.
Fréttavefur Berlingske hefur þetta eftir vaktstjóra lögreglunnar í Kaupmannahöfn.
„Rétt áður en úrslitaleikurinn byrjaði hringdi í okkur maður og vildi tilkynna að eiginkonan hefði ráðist á sig. Hún var óánægð með, að hann vildi horfa á handboltann þegar hann átti að vera að undirbúa kvöldmatinn," er haft eftir vaktstjóranum.
Ekki kom fram í hverju árásin var fólgin en lögreglan taldi ekki ástæðu til að fara á staðinn heldur veitti manninum áminningu gegnum símann og bað hann að haga sér skikkanlega.
Danir töpuðu naumlega fyrir Frökkum eftir framlengingu.