Tollverðir í Kristiansand í Noregi ráku upp stór augu þegar þeir skoðuðu Chrisler sendiferðabíl sem beið á bryggjunni eftir ferjunni til Hirsthals í Danmörku. Í bílnum reyndust vera 23 hælisleitendur frá Kosovo.
Fram kemur á vef norsku tollgæslunnar að fólkið hafi verið á öllum aldri, af báðum kynjum og í hópnum voru m.a. þungaðar konur.
„Við höfum orðið vitni að ýmsu skrýtnu í tollgæslunni í Kristiansand en þetta var vægast sagt óvenjulegt," segir Helge Breilid, skrifstofustjóri tollgæslunnar.
„Við höfum áður fundið fólk, sem hefur falið sig í farangursgeymslum bíla en við höfum aldrei áður opnað bíldyr og séð 23 manneskjur koma út."
Hælisleitendurnir gáfu þá skýringu, að þeir væru á leiðinni í samkvæmi í Danmörku.