Bandarískur innbrotsþjófur var handtekinn eftir að sími hans fannst í hleðslu í íbúðarhúsnæði í Washington DC. Ræninginn flúði í gegnum glugga eftir að íbúar komu að honum í miðjum klíðum.
Við leit fundu lögreglumenn síma í hleðslu sem íbúarnir vildu ekki kannast við. Þeir flettu upp í símaskránni, hringdu í tengilið og sögðu að eigandi símans hefði lent í slysi og þeir þyrftu að fá uppgefið nafn hans. Viðmælandinn gaf lögreglu upp nafnið á manninum og var hann í kjölfarið handtekinn og kærður fyrir tíu innbrot.
Að sögn lögreglu varð heimili þjófsins rafmagnslaust í ofsaveðri og þess vegna hafi hann ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi, fara í ránsferð og hlaða símann sinn.