Belgískur hlaupari setti í dag heimsmet í að hlaupa flest maraþonhlaup í röð.
Stefaan Engels, sem er 49 ára, hljóp 365 maraþonhlaup á jafnmörgum dögum. Síðasta hlaupinu lauk hann í dag í Barcelona á Spáni en hann hóf heimsmetstilraunina í borginni fyrir réttu ári.
„Ég lít ekki á maraþonárið mitt sem kvöl. Þetta var bara venjulegt starf," segir Engels á heimasíðu sinni.
Engels, sem kallaður hefur verið Maraþonmaðurinn, lauk heimsmetsárinu með því að hlaupa sjö hlaup í sjö löndum. Alls lagði hann að baki 15.401 kílómetra á árinu.
Fyrra metið átti Japaninn Akinori Kusuda, sem hljóp 52 maraþonhlaup í röð árið 2009. Kusuda var þá 65 ára.
Engels hefur áður fengið nafn sitt skráð í heimsmetabók Guinness. Árið 2008 keppti hann í 20 járnkarlskeppnum á einu ári.