Forstjóri Deutsche Bank, stærsta banka Þýskalands, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að láta hafa eftir sér í blaðaviðtali að konur myndu gera stjórn bankans „fallegri og litríkari".
Umræða er nú um það í Þýskalandi hvort setja eigi lög um kynjakvóta í stjórnum stórra fyrirtækja, líkt og er gert hér á landi og víðar. Í viðtali við Handelsblatt viðurkennir Josef Ackermann, forstjóri Deutsche Bank, að engin kona sé í framkvæmdastjórn bankans.
„En ég vona að stjórnin verði fallegri og lítríkari einn góðan veðurdag," sagði Ackermann og vísaði til þess að konur myndu á endanum fá sæti í þessari stjórn.
Ilse Aigner, landbúnaðar- og neytendaráðherra, gagnrýndi Achermann fyrir ummælin og sagði að þeir sem vildi hafa fallega og litríka hluti í kringum sig ættu að fá sér gönguferð í blómabeði eða í listasafni.
Talsmaður bankans sagði, að ummæli Ackermanns hefðu verið slitin úr samhengi og að hann væri herramaður af gamla skólanum.
Sagði talsmaðurinn að Ackermann hefði látið ummælin falla á blaðamannafundi í síðustu viku þar sem hann lagði áherslu á nauðsyn þess að fleiri konur yrðu skipaðar í ábyrgðarstöður.
Um 44,3% starfsmanna Deutsche Bank eru konur en hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum hjá bankanum er aðeins 16,1% að sögn Handelsblatt.