Nýsjálendingar eru viðurkenndir frumkvöðlar í óvenjulegum uppátækjum svo sem teygjustökki og fallhlífaskíðastökki. Nú ætla þeir að kanna mörk hins mögulega í matargerðarlist og bjóða m.a. upp á hrossasæðisdrykk.
Þessi drykkur verður á matseðlinum á árlegri villibráðarhátíð á eyjunni Hokitika í mars, ásamt hráum sporðdrekum, súkkulaðihúðuðum bjöllum og djúpsteiktum ormum.
„Hugmyndin er sú, að menn verði eins orkumiklir og stóðhestar í viku á eftir," sagði Lindsay Kerslake, hrossaræktandi í Christchurch, sem fékk hugmyndina að þessum óvenjulega orkudrykk.
Hann sagði að hrossasæðið væri eins og mjólkurhristingur á bragðið og því yrði skolað niður með orkudrykkjarblöndu.
Villibráðarhátíðin var fyrst haldin fyrir 22 árum. Flestir réttirnir eru tiltölulega hefðbundnir, eins og villigaltarsteik og dádýrakjöt en skipuleggjendur vilja gjarnan bjóða upp á óvenjulega rétti í bland. Þannig hafa hrútspungar og nautsreður sést á matseðlinum.