5.360 kíló af kvenfólki komu saman á hafnarvoginni á Skagaströnd vegna átaks sem nú stendur yfir hjá konum í bænum. 70 konur eru skráðar á námskeiðið „Á réttri leið – bætt heilsa, betri líðan“ en það mun standa yfir í tíu vikur undir leiðsögn fjögurra kvenna á Skagaströnd.
Nálægt 40% kvenna á aldrinum 18 ára og eldri, búsettra á Skagaströnd, eru með í fjölbreyttu átaki til að bæta heilsu sína og líðan.
Meðal markmiða kvennanna með átakinu er að grenna sig og styrkja og því mættu þær á hafnarvogina til að vita hvað hópurinn væri þungur samanlagt í upphafi átaksins. Ætlunin er að vigta hópinn aftur undir lok námskeiðsins til að sjá hvaða árangri konurnar hafa náð í sameiningu.