Saga af tveimur Færeyingum, sem tóku gasofn með sér af krá í Þórshöfn, er ekki góð dæmisaga um að heiðarleiki borgi sig að lokum.
Fram kemur á vef Sosialins, að mennirnir hefðu séð ofninn standa utan við krána og þeim hafi þótt mjög sniðugt, að taka hann með sér heim.
En þegar mennirnir vöknuðu daginn eftir fóru timburmennirnir og samviskan að plaga þá og þeir ákváðu því að fara með ofninn aftur og skila honum. Kráareigandanum þótti uppátæki mannanna hins vegar ekkert sniðugt og kærði þá til lögreglu.
Nú hefur dómstóll fjallað um málið. Hann frestaði refsingu mannanna skilorðsbundið en gerði þeim að borga ofneigandanum 6000 danskar krónur, um 130 þúsund íslenskar krónur, í bætur vegna þess að ofninn skemmdist í öllum flutningunum.
„Þetta fékk annan mannanna til að segja í dómssalnum, að þeir hefðu betur sleppt því að vera heiðarlegir og skila ofninum því enginn hefði séð þegar þeir tóku hann," segir Sosialurin.