Grænlensk kona var í lífshættu um tíma eftir að hún reyndi að smygla 200 grömmum af hassi frá Kaupmannahöfn til Grænlands en konan gleypti poka með hassinu.
Vefurinn sermitsiaq.ag segir frá því að tveir karlar og ein kona hafi verið handtekin í flughöfninni í Nuuk á föstudag þegar fíkniefnahundur gaf til kynna að fólkið væri með fíkniefni í fórum sínum. Fólkið er allt í sömu fjölskyldunni, að sögn vefjarins.
Við rannsókn á sjúkrahúsi kom í ljós, að fólkið var allt með „aðskotahluti" í maganum. Reyndust þau öll hafa gleypt poka með hassi áður en þau fóru frá Kaupmannahöfn.
Karlarnir tveir voru látnir lausir daginn eftir en þá höfðu hasspokarnir skilað sér með eðlilegum hætti. Konan fékk hins vegar meltingartruflanir og magaverki og á endanum var gerð á henni neyðaraðgerð á þriðjudag til að fjarlægja hasspokann en læknar töldu að ella væri hún í lífshættu.
Niels Nyvang, lögreglustjóri, segir að konan sé nú við góða heilsu. Hann segir, að það geti verið lífshættulegt að smygla hassi með þessum hætti „og hundurinn finnur hvort eð er lykt af hassi í maganum svo þetta er ekki öflugasta smyglaðferðin," segir hann.