Fangelsinu á síðustu „fangaeyjunni“ í Bandaríkjunum var lokað í dag, 135 árum eftir að það var opnað. McNeil-eyja tilheyrir Washington, sem enn var ekki sjálfstætt ríki þegar fangelsið opnaði árið 1875. Kaldur sjórinn og sterkir straumar í kringum eyjuna gera það að verkum að ómögulegt er að komast í land á sundi og því þótti hún ákjósanlegur staður til þess að hýsa glæpamenn.
Á síðustu misserum hafa 1200 fangar verið hýstir á eyjunni og 400 fangaverðir haft eftirlit með þeim. Stofnun fyrir kynferðisafbrotamenn er og verður áfram á eyjunni en gert er ráð fyrir að náttúruöflin muni smám saman taka völdin þar sem áður stóðu íbúðarhús, kirkja, hafnaboltavöllur og hamborgarastaður.
Fyrsti fanginn sem vistaður var á eyjunni hafði hlotið dóm fyrir að selja innfæddum viskí. Meðal frægari fanga sem gistu eyjuna voru Robert Stroud, sem um var gerð myndin Birdman of Alcatraz, lestarræninginn Roy Gardner og bílaþjófurinn Charles Manson, sem seinna komst í heimspressuna fyrir öllu voðalegri verk sín.