Kínverskur bóndi, sem þjáðist af dularfullum sjúkdómi í rúma tvo áratugi, reyndist vera með byssukúlu í höfðinu.
Wang Tianqing þjáðist af höfuðverk og öðrum sjúkdómseinkennum í 23 ár og ástandið fór stöðugt versnandi. Hann lét loks verða af því að fara til læknis, sem tók röntgenmyndir af höfði bóndans og í ljós kom byssukúla.
Skurðlæknar, sem fjarlægðu kúluna, segja að aðeins hafi munað millimetrum að Wang skyldi halda lífi.
Þegar Wang var spurður hvernig kúlan hefði lent í höfði hans sagðist hann muna eftir því, að dag einn árið 1988 hafði hann fengið skyndilegt höfuðhögg og misst meðvitund.
Hann kom til sjálfs sín á sjúkrahúsi þar sem læknar fundu ekkert athugavert og sendu hann heim.
Wang fór síðan að fá flog sem fóru versnandi með árunum.