Leigubílstjórinn Mohammad Alam er nýkominn heim úr lengstu og dýrustu ökuferð sem hann hefur farið í. Hann var beðinn um að keyra með tvo vini þvert yfir Bandaríkin, frá New York til Los Angeles, og fyrir það fékk hann tæpar 600 þúsund kr.
John Belitsky fjárfestir og vinur hans Dan Wuebben ákváðu að gera eitthvað „töfrum líkast“. Þeir komu sér saman um að taka leigubíl til Los Angeles og fengu Mohammad Alam til þess eftir að hafa rekist á hann á LaGuardia flugvelli í New York.
Vegalengdin var tæpir 4.000 km og tók ferðin sex daga með stuttu stoppi í Las Vegas þar sem vinirnir unnu tæplega 230 þúsund kr.
Talið er að ferðalagið hefði kostað tæpar 2 milljónir hefði gjaldmælirinn verið í gangi. Ekki er vitað hvernig félagarnir Belitsky og Wuebben hyggjast komast aftur til New York.