Rita Chretien, kanadískur ferðamaður sem týndist í afskekktu skóglendi í Nevada-ríki í Bandaríkjunum fyrir sjö vikum síðan, er fundin. Veiðimenn fundu Chretien á lífi nærri staðnum þar sem bifreið hennar festist.
Chretien, sem er 56 ára gömul, tjáði lögreglu að bifreið hennar hefði fest í mold um miðjan mars síðastliðinn og að 59 ára gamall eiginmaður hennar, Albert, hefði farið fótgangandi í leit að aðstoð. Síðan þá hefur Chretien lifað á hnetum og annars konar nasli og vatni. Lögregla hætti leit að hjónunum í síðasta mánuði, en hefur nú hafið leitina að eiginmanninum að nýju.
Hjónin voru á leið frá heimili sínu í Bresku Kólumbíu til Las Vegas þegar þau ákváðu að aka út af þjóðveginum til að skoða náttúruna betur. Þau týndust í Elko-sýslu sem er ein sú stærsta og strjálbýlasta í öllum Bandaríkjunum.
Einn af þremur sonum hjónanna, Raymond Chretien, segir að fjölskyldan hafi verið agndofa yfir tíðindunum af móður þeirra. „Við höfum ekki alveg náð að melta þetta. Þetta er kraftaverk,“ sagði Raymond í viðtali við dagblaðið Portland Oregonian. Hann segir að móðir hans sé nú að jafna sig á sjúkrahúsi, en hún missti á bilinu níu til fjórtán kíló á þessum tíma.