35 ára gamall karlmaður frá Ikast í Danmörku var í morgun dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa skilið fyrrum sambýliskonu sína eftir fáklædda í vegarkanti í fyrra.
Frá þessu segir á vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten.
Parið hafði verið í veislu, þar sem slest hafði upp á samskipti þeirra. Er þau komu heim til sín urðu þau ásátt um að ljúka sambandinu.
Konan pakkaði eigum mannsins niður og vísaði honum til hvílu á stofusófanum, þannig að hún ætti hægara um vik að vísa honum á dyr morguninn eftir.
Þegar parið reis úr rekkju morguninn eftir tóku þau til við rifrildið þar sem frá var horfið og slagsmál brutust út á milli þeirra. Konan hringdi þá á lögreglu, en maðurinn fór inn í bíl sinn og ætlaði að aka á brott.
Konunni hugnaðist ekki að hann skyldi ætla að flýja undan laganna vörðum og elti hann inn í bílinn fremur fáklædd, en hún var klæddi í brjóstahaldara og g-streng.
Maðurinn ók af stað og konan jós yfir hann skömmum. Er komið var á hraðbraut sagðist hann að eigin sögn ekki hafa getað hlustað á þetta lengur og bar konuna út úr bílnum og skildi hana eftir fáklædda í vegarkantinum.