Háttsettur rússneskur lögreglumaður, sem nefndur var „lögreglumaðurinn pissandi" er hættur störfum. Maðurinn fékk viðurnefnið eftir að myndskeið birtist af honum á netinu þar sem hann sást kasta af sér vatni á skrifstofugangi í lögreglustöð.
Tugir þúsunda hafa skoðað myndskeiðið, sem birt var á YouTube. Um er að ræða mynd úr öryggismyndavél en þar sést lögreglumaðurinn, sem heitir Alexei Isakov, koma fáklæddur fram á ganginn og kasta af sér vatni.
Myndskeiðið hefur yfirbragð gamallar þögullar gamanmyndar því eftir að Isakov hefur farið aftur inn í skrifstofu sína koma samstarfsmenn hans fram og horfa undrandi á hlandpollinn á gólfinu.
Isakov var starfsmannastjóri lögreglunnar í Lomonosov, úthverfi St. Pétursborgar. Lögreglan rannsakaði málið og niðurstaðan var sú, að Isakov hefði verið á lögreglustöðinni þennan dag og „verið í ölvunarástandi".
Lögreglan segir í yfirlýsingu, að Isakov hafi nú sagt upp störfum en Mikhaíl Sukhodolskí, lögreglustjóri í St. Pétursborg, hafi beðið rússneska innanríkisráðuneytið að reka hann.
„Þetta myndskeið hefur vakið mikla athygli almennings og skaðað ímynd stofnana innanríkisráðuneytisins umtalsvert," segir í yfirlýsingu lögreglunnar.
Ekki er ljóst hvernig myndskeiðið komst á kreik en sá sem setti það á YouTube lætur tónlist úr vinsælli sovéskri gamanmynd, Lukkuriddurunum, hljóma undir.
Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands, hefur lýst því yfir að miklar umbætur verði að eiga sér stað innan rússnesku lögreglunnar, sem er sökuð um vanhæfni og spillingu.