Fljúgandi furðuhlutur (FFH), sem var ljósmyndaður í Belgíu árið 1990, olli heilabrotum vísindamanna Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA, hvað þá annarra. Nú hefur verið upplýst að um var að ræða þríhyrning úr frauðplasti, að sögn manns sem framdi prakkarastrikið.
Hrekkjalómurinn játaði verknaðinn í dag. Vísindamenn grúfðu sig yfir myndir af þríhyrndu fyrirbæri með fjórum ljósum, sem sagt var að ungur verkamaður hefði tekið í apríl 1990. Leyndardómurinn greindi frá gjörðum sínum í sjónvarpi í dag.
„Fljúgandi furðuhluturinn“ var búinn til á fáeinum klukkustundum og teknar af honum myndir sama kvöld. Myndin var svo birt eftir að greint var frá mörgum fljúgandi furðuhlutum yfir Belgíu á árunum 1989 og 1990.
Maðurinn sem smíðaði fyrirbærið var 18 ára þegar hann og nokkrir vinir hans „bjuggu það til, máluðu það, hengdu það upp og tóku myndir af því,“ eins og hann lýsti atburðarásinni.
Ljósmyndin reyndist vera sú skarpasta sem sérfræðingar höfðu fengið eftir margar frásagnir af fljúgandi furðuhlutum á tveggja ára tímabili.
Nokkrum dögum eftir að myndin byrtist fékk belgíski flugherinn fyrirmæli um að eltast við fljúgandi furðuhluti hvar sem til þeirra næðist, en það bar engan árangur. Sumir töldu að hinir meintu fljúgandi furðuhlutir væru hulinsflugvélar (stealth) sem NATO væri að prófa.
„Það er of auðvelt að blekkja fólk, jafnvel með ódýru módeli,“ sagði hrekkjlómurinn sem ákvað að gera loksins hreint fyrir sínum dyrum.