Jólaverslun hafin í Lundúnum

Harrods í Lundúnum.
Harrods í Lundúnum. Reuters

Þótt nú sé hásumar og 149 dagar til jóla er jólaverslunin hafin í bresku stórverslununum Harrods og Selfridges en þar hófst sala á jólaskrauti 28. júlí. 

Þá birti leikfangaverslunin Hamleys í júní spá um hver vinsælustu jólaleikföngin yrðu.

Erlendir ferðamenn í Bretlandi, margir klæddir í stuttbuxur og boli og með sólgleraugu, lyftu brúnum þegar þeir gengu gegnum „Jólaheim" Harrods þar sem vinsæl jólalög hljómuðu.    

„Við áttum leið framhjá og vorum furðu lostin yfir því að sjá þetta á þessum árstíma," sagði Marien Lydi, 47 ára ferðamaður frá Belgíu, sem var að virða fyrir sér snæviþakin jólatré og hrúgur af jólaskrauti. 

„Það er gaman að skoða þetta en mér finnst nokkuð snemmt að kaupa jóladót núna."  

Talsmenn bæði Harrods og Selfridges segja, að ástæðan fyrir þessari snemmbúnu jólaverslun sé að mæta þörfum alþjóðlegs markaðar og ferðamanna, sem koma til borgarinnar á sumrin. 

Einnig hafa birst fréttir um að verslanirnar séu að bregðast við því, að ramadan, föstumánuður múslima, hefst 1. ágúst, 11 dögum fyrr en í fyrra.  

Blaðið Evening Standard sagði, að stórverslanir í Lundúnum byggjust við miklum fjölda ferðamanna frá Miðausturlöndum nú um helgina áður en föstumánuðurinn hefst.

Geraldine James, innkaupastjóri í jóladeild Selfridges, sagði að jóladeildin í verslun fyrirtækisins við Oxfordstræti hefði verið opnuð fjórum dögum fyrr en á síðasta ári svo hægt væri að ná síðustu helginni í júlí.

„Flestir viðskiptavina okkar koma frá útlöndum, frá Kína, Miðausturlöndum, Bandaríkjunum - Bandaríkjamenn elska jólin - og jóladeildin laðar að sér ferðamenn," sagði hún.

Talsmaður Harrods sagði, að viðskiptavinir kæmu í verslunina víðsvegar að úr heiminum og verið væri að mæta þeirra þörfum. Helsti annatíminn í Harrods væri í júlí og ágúst og margir viðskiptavinir spyrji um jólavörur. 

Sumir Bretar hafa ekkert á móti því að kaupa jóladót nú. 

„Það er snemmt að byrja jólainnkaupin nú. En ég las um þetta í blöðunum og ákvað að skella mér," sagði Gaye Baker, fimmtug, frá Yorkshire.

„Ég ætla að kaupa eitthvað handa dóttur minni en hún heldur örugglega að ég sé gengin af göflunum að kaupa jólaskraut í júlí. 

Selfridges segir, að það sem hafi selst best í jóladeildinni sé jólatrésskraut í bresku fánalitunum sem kostar 11,95 pund, 2300 krónur. Þá eru neongrænt og cappuccinobrúnt vinsælustu jólalitirnir. 

Í Harrods er að finna yfir 250 þúsund tegundir af jólaskrauti, allt frá jólakúlum, sem kosta 1,99 pund, 380 krónur, til silfurlitaðs hreindýrs, sem kostar 299 pund og jólasveins í fullri stærð sem er verðlagður á 2999 pund, 567 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar