Þýskur félagsskapur sem veitir ráð um siðareglur og framkomu vill að bann verði lagt við kossum á vinnustöðum.
Knigge samtökin segja að sá siður að heilsa vinnufélögum og viðskiptafélögum með kossi valdi mörgum Þjóðverjum óþægindum.
Forseti samtakanna, Hans-Michael Klein, segir að hann hafi fengið tölvubréf frá fólki sem hefur áhyggjur af þessu kossaflensi á vinnustöðum og hvetur fólk til þess að halda sig við handabandið gamla góða í stað þess að kyssa fólk á kinnina.
Á vef breska ríkisútvarpsins er haft eftir Klein að þetta kossaflens sé ekki þýskur siður heldur komi frá Ítalíu, Frakklandi og Suður-Ameríku. Ekki sé hægt að banna fólki að kyssast á vinnustöðum en vernda verði þá sem vilji ekki láta kyssa sig. Við leggjum því til að fólk setji á skrifborð sín í vinnunni vinsamlega ábendingu þar að lútandi.