Sænsk 36 ára gömul kona hefur sett auglýsingu í norska Aftenposten til að hafa uppi á Jörgen, Norðmanni sem hún átti einnar nætur gaman með fyrir tveimur árum á Langöyene í Óslófirði. Níu mánuðum síðar fæddist lítil stúlka og konan segir að hún verði að fá að kynnast föður sínum. Hún segist alls ekki ætla að krefja hann um meðlag.
„Ég er ekki stolt af þessu enda þótt afleiðingin af því að ég missteig mig þarna sé að nú á ég yndislegustu stúlku í heimi,“ segir konan. Hún býr í Dölunum í Svíþjóð en bjó og starfaði í Ósló þegar barnið kom undir. Hún á mynd af Jörgen en veit nær ekkert um hann. Tilraunir hennar til að fá að bera myndina saman við myndir í gögnum hagstofunnar í Noregi hafa ekki borið árangur, þar er borið við lögum um persónuvernd.
Konan segist furða sig á að lögin gangi framar hagsmunum barns sem verði að vita faðerni sitt. Hún segist gera sér fulla grein fyrir því að aðstæður Jörgens geti verið erfiðar, hann geti jafnvel verið orðinn fjölskyldufaðir en þá verði bara að hafa það. Og hún hafi enga þörf fyrir peninga frá honum, opinberu barnabæturnar dugi ágætlega.
Konan segist hafa verið í stuttri skemmtiferð með nokkrum vinum sínum og var tjaldað á lítilli eyju. Þá bar að tvo menn á litlum kanó sem ákváðu að tjalda við hliðina á fólkinu. Kynni tókust með fólkinu og var skálað ótæpilega langt inn í nóttina, að sögn konunnar.