Ísland er 62. landið sem hinn víðförli Bandaríkjamaður Jean De Lafontaine heimsækir, en hann hefur dvalið hérlendis undanfarnar tvær vikur. Hann hefur komið í allar heimsálfur, að Suðurskautslandinu undanskildu, og segist hafa lítinn áhuga á því að koma þangað.
De Lafontaine er langt frá því að vera hættur að ferðast, þrátt fyrir að vera 75 ára að aldri því í haust ætlar hann að heimsækja nokkur ríki í Afríku og næsta vor mun hann ferðast um Austur-Evrópu.
„Mér finnst gaman að koma til ólíkra landa og upplifa mismunandi menningu. Ísland fangaði athygli mína í fyrra þegar það var eldgos í Eyjafjallajökli og ákvað ég í framhaldinu að koma hingað,“ segir De Lafontaine og bætir við að þótt hann hafi ferðast víða, hafi hann aldrei komist í tæri við álíka náttúruvinjar og Ísland hefur að geyma.
„Íslensk náttúra er hreint út sagt ótrúleg. Fossarnir eru alveg sérstaklega fallegir. Ég hef séð marga fossa í Bandaríkjunum, en þeir jafnast ekkert á við fossana hér á Íslandi. Landslagið er stórbrotið og ég held að það sé mjög erfitt að komast í tæri við sambærilegar náttúruperlur og finna má hér á Íslandi annars staðar í heiminum,“ segir Lafontaine meðal annars í Morgunblaðinu í dag.