Mikil eftirvænting er meðal safnara en til stendur að bjóða upp nærfatnað Viktoríu Bretadrottningar á næstunni. Er gert ráð fyrir að þrjú þúsund pund fáist fyrir silkibrók sem var í hennar eigu.
Munirnir sem verða boðnir upp voru í eigu bandarísku Forbes fjölskyldunnar. Auk undirfata verður hægt að bjóða í sokka Viktoríu, húsgögn og olíumálverk sem voru í eigu Forbes.
Silkisokkar, svartir og hvítir, sem Viktoría klæddist þegar hún syrgði Albert prins eru taldir fara á 500-800 pund í uppboðinu, samkvæmt frétt BBC.
Margir frægir einstaklingar gistu á heimili Forbes í Lundúnum, þar á meðal Ronald Reagan og Elizabeth Taylor.
Viktoría fæddist árið 1819 og lést árið 1901. Hún ríkti í yfir sextíu ár, lengur en nokkur annar breskur þjóðhöfðingi og er sá tími í sögu Bretlands kenndur við hana og kallaður Viktoríutímabilið.