Dæmi eru um að stúlkur í Bandaríkjunum hafi vætt tíðatappa upp úr vodka í þeim tilgangi að komast í vímu. Ennfremur eru dæmi um að drengir hafi notað vodka-tíðatappa og komið þeim fyrir í endaþarmi.
„Með þessari aðferð fer áfengið beint inn í blóðrásina. Það er ekkert sem stöðvar, það eru engar magasýrur sem tefja áhrifin,“ segir Dan Quan frá Maricopa Medical Center.
Tilraunir ungmenna til að komast í áfengisvímu með þessum hætti eru ekki alveg nýjar af nálinni, en læknar urðu fyrst varir við þetta árið 1999. Ný rannsókn lækna staðfestir að hópur ungmenna gerir tilraunir í þessa veru. Dæmi eru um að ungmenni, sem hafa verið að nota tíðatappa með þessum hætti hafi þurft að leggjast inn á spítala vegna alvarlegrar áfengiseitrunar.