Þjóðverji nokkur hefur lagt fram kæru vegna þess, að Benedikt páfi XVI notaði ekki bílbelti þegar ekið var með hann í sérútbúnum bíl í Þýskalandi nýlega.
Páfi var í opinberri heimsókn í Þýskalandi í september og með í för var sérstakur brynvarinn bíll sem notaður hefur verið lengi.
Lögmaðurinn Christian Sundermann staðfesti við blaðið Der Westen í dag, að íbúi í borginni Dortmund hefði sent yfirvöldum í Freiburg kæru. Þar kom páfi við í Þýskalandsheimsókn sinni.
Kærandinn segir, að páfi hafi sést nokkrum sinnum í bílnum án þess að nota bílbelti eins og lögbundið er í Þýskalandi. Segist kærandinn geta leitt fram nokkur vitni að þessu, þar á meðal erkibiskupinn í Freiburg og forsætisráðherra Baden-Württemberg.
Skrifstofa Sundermanns birti einnig myndskeið á vefnum YouTube þar sem páfi sést á ferð í bílnum og er greinilega ekki með bílbelti.
Fari málið fyrir dóm og páfi verði dæmdur sekur gæti hann þurft að greiða allt að 400 þúsund krónur í sekt.
Bæði lögmaðurinn og kærandinn segja, að tilgangurinn með kærunni sé að vekja athygli á umferðaröryggismálum en ekki að grafa undan kaþólsku kirkjunni.