Í umróti ítalskra stjórnvalda undanfarnar vikur var prófessor í jarðræktunarfræði í Kanada fyrir mistök sagður eiga að verða næsti aðstoðarlandbúnaðarráðherra Ítalíu.
Francesco Braga kennir við háskóla í Ontariu. Á mánudaginn sá hann nafn sitt og ljósmynd á heimasíðu ítalsks dagblaðs þar sem sagði að hann hefði verið skipaður í stöðuna og með fylgdu jákvæð ummæli ýmissa sem starfa í landbúnaði. Furðaði Braga sig nokkuð á þessu því auk þess að hafa flutt frá Ítalíu fyrir 28 árum, þá hafði enginn tilkynnt honum um stöðuveitinguna.
Í kjölfarið fékk hann tölvupóst frá ítalska landbúnaðarráðuneytinu sem bað hann um að líta við auk fjölda skeyta þar sem honum var óskað til hamingju. Í fjölmiðlum var m.a.s. vitnað í nýja landbúnaðarráðherrann, Mario Catania, ausa Braga lofi.
„Eiginkona mín hélt að vinir mínir á Ítalíu væri að stríða okkur,“ sagði Braga en hann hóf að skipuleggja för til Ítalíu í því skyni að taka formlega við embættinu.
Eftir þó nokkur tölvupóstsamskipti kom það hinsvegar í ljós að ráðuneytið hafði gert mistök. Starfið var í raun ætlað Franco Braga, prófessor í verkfræði við Sapienza háskólann í Róm en hann er sérfræðingur í jarðskjálftum.
„Þetta voru klaufaleg mistök,“ segir Francesco Braga. „En þetta eru samt þeir sem eiga að bjarga Ítalíu frá falli og þeir virðast ekki vera með allt á hreinu.“