Bandaríski rithöfundurinn David Guterson hreppti í gærkvöldi árleg verðlaun, sem veitt eru í Bretlandi fyrir vondar kynlífslýsingar í bókmenntum.
Verðlaunin fékk Guterson fyrir sturtuatriði í bókinni Ed King, sem er einskonar nútímaútgáfa af goðsögninni um Ödipus konung. Verðlaunakaflinn í bókinni fjallar um kynmök móður við son sinn en einnig var vísað til þess, að í bókinni sé mikið af vísunum á borð við: fjölskyldudjásn, bakdyr og fordyri.
Guterson, sem ekki gat verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna, sagði: „Ödipus fann upp vont kynlíf og ég er því alls ekkert hissa.“ Leikkonan Barbara Windsor afhenti útgefendum bókarinnar viðurkenninguna í staðinn.
Tímaritið Literary Review hefur veitt þessi verðlaun í 19 ár og meðal verðlaunahafa eru Norman Mailer, Melvyn Bragg og Tom Wolfe. Það var blaðamaðurinn Auberon Waugh sem upphaflega stóð fyrir verðlaununum til að beina athygli að grófum, smekklausum og oft kæruleysislegum óþarfa kynlífslýsingum í nútíma skáldsögum. Verðlaunin eru ekki veitt fyrir klám- eða kynlífsbækur.
Guterson varð heimsfrægur fyrir bók sína Fellur mjöll í Sedrusskógi en kvikmynd var m.a. gerð eftir bókinni árið 1999. Ed King er fimmta skáldsaga hans og fjallar um dreng, sem er gefinn til ættleiðingar og verður síðan einn af voldugustu mönnum heims, myrðir föður sinn og sefur hjá móður sinni. Í bókinni eru nokkrir kaflar með berorðum ástarlífslýsingum og gagnrýnendur hafa verið nokkuð á einu máli um að kaflarnir séu afar óþægilegir aflestrar.
Dómarar Literary Review sögðu að eftirfarandi kafli hefði ráðið úrslitum um að Guterson hlaut verðlaunin í ár:
„Ed stóð og hélt höndunum á hnakkanum eins og einhver, sem hefur verið handtekinn, á meðan hún misþyrmdi honum með sápustykki. Eftir nokkra stund lokaði hann augunum og Diane, sem beitti nöglunum nú og starði í andlit hans, veitti honum lausn með tveimur æfðum höndum, önnur kreisti fjölskyldudjásnin en hin beitti sápu- og vatnsmeðferðinni af krafti. Það leið ekki á löngu þar til hinn fagri og fullkomni Ed King fékk sáðlát í fimmta skipti á 12 stundum og leit á meðan út eins og rómversk stytta í almenningsbaðhúsi. Síðan þvoðu þau sér, þurrkuðu sér og klæddu sig, og fóru á dýrt veitingahús til að borða hádegisverð."
Meðal þeirra höfunda sem tilnefndir voru til verðlaunanna í ár voru Haruki Murakami fyrir bókina 1Q84, James Frey fyrir The Final Testament of the Holy Bible og Lee Child fyrir bókina The Affair.