Ítalskir umferðarlögreglumenn, sem voru á ferð í borginni Bari, trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeir mættu ökumanni, sem var með sinn farsímann í hvorri hendi og þar af leiðandi enga hönd á stýri bílsins.
Þegar lögreglumenn báðu manninn um skýringar sagðist hann hafa verið að tala við eiginkonuna þegar móðir hans hringdi og hann hefði auðvitað neyðst til að tala við þær báðar; á hvoruga gat hann skellt.
Maðurinn, sem er 43 ára flutningabílstjóri, viðurkenndi síðan í yfirheyrslu, að hann væri vanur að tala í tvo síma í einu í vinnunni.
Lögregla sektaði manninn um 152 evrur, jafnvirði rúmlega 23 þúsunda króna, og að auki fékk hann fimm punkta í ökuferilsskrána.
Ítölsk lög banna að talað sé í farsíma undir stýri en fáir fylgja þeim lögum. Myndskeið birtist á vefnum í maí þar sem maður sást tala í tvo síma í einu og stýra bíl með olnbogunum.