Tveir íbúar einbýlishúsahverfisins Grønholtparken í Kolding handtóku gluggagægi á jóladag. Ekki var um að ræða villuráfandi íslenskan jólasvein heldur þarlendan 34 ára karlmann sem undanfarið hefur gægst inn um glugga í hverfinu.
Borgararnir tveir sátu fyrir gluggagæginum í bíl. Þeim tókst að góma kauða og hefur gluggagægirinn verið kærður fyrir velsæmisbrot, að sögn fréttavefjarins JV á Jótlandi. Lögreglunni höfðu borist margar tilkynningar undanfarið um gluggagæginn.
Þá var framið blygðunarsemisbrot á göngustíg við hverfið fyrir skömmu. Borgararnir tveir sem handtóku gluggagæginn höfðu talið líklegt að hann réði illa við sig um jólin og sátu því fyrir honum. Maðurinn birtist svo um miðnætti á stað þar sem hann hafði áður gónt inn um glugga á unga konu sem þar bjó.
Borgararnir tveir eltu manninn, framkvæmdu borgaralega handtöku og kölluðu svo eftir lögreglunni sem handtók manninn. Honum var sleppt eftir að honum var birt ákæra.