Nokkuð sérstakar aðstæður hafa skapast á sveitabæ í suðurhluta Svíþjóðar en þar hefur göltur nokkur tekið ástfóstri við naut á bænum. Að sögn bóndans, Magnus Nyman, varð gölturinn alveg heltekinn af nautinu fyrir um ári og hafi síðan ekki látið það í friði.
Reynt hefur verið að halda geltinum frá nautinu samkvæmt fréttavefnum Thelocal.se í dag en þá hefur gölturinn að sögn gert sér lítið fyrir og stokkið yfir girðingar til þess að vera hjá sínum heittelskaða. Hins vegar sé ástin engan veginn endurgoldin og nautið sé lítt hrifið af tilburðum galtarins.
Gölturinn hefur þó ekki látið það hafa áhrif á sig og notar hvert tækifæri sem hann fær til þess að gera hosur sínar grænar fyrir nautinu og eltir það á röndum. Nyman segir ljóst að hrifning galtarins á nautinu sé greinilega ennfremur kynferðisleg enda hafi hann ítrekað gert tilraunir til þess að hafa mök við nautið.