Fjórum tunnum af bjór, flösku af kampavíni og tækjum til hjólreiðaviðgerða hefur verið stolið úr breska þinghúsinu á undanförnum mánuðum. Þá hefur blómaskreytingu, tveimur spjaldtölvum, vegabréfi og prentara einnig verið stolið en frá júní á síðasta ári og til 22. mars hefur verið tilkynnt um stuld á 36 hlutum úr þinghúsinu.
Auk alls þessa er á listanum yfir stolna hluti tíu fartölvur, úr, verðlaunapeningur, tveir farsímar, minjagripur og kerra full af bókum.
Ströng öryggisgæsla er við þinghúsið og eru öryggisverðir við alla innganga sem fylgjast ítarlega með umferð í og við húsið. En þó virðist sem einhverjir fingralangir einstaklingar hafi komist upp með þjófnað úr húsinu á síðustu mánuðum.
Lögmaður sem á sæti í einni þingnefnd lagði fyrirspurnina fram á þinginu en fartölvu og spjaldtölvu var stolið frá honum í þinghúsinu.