Bandarísk kona á fimmtugsaldri var handtekin á dögunum við harla óvenjulegar aðstæður, þar sem hún lá í sólbaði á sundlaugarbakka. Ástæða þess var að konan var í bakgarði fyrrverandi unnusta síns og þar í leyfisleysi.
Umrætt atvik gerðist í smábænum Okaloosa og var það nágranni sem lét manninn vita af vafasömum mannaferðum í garðinum. Þegar maðurinn athugaði hvers kyns var sá hann sína fyrrverandi unnustu á sundi í sundlauginni.
Í stað þess að ræða sjálfur við konuna hringdi maðurinn á lögregluna. Þegar lögreglumenn komu á vettvang lá konan á sundlaugarbakkanum í sólbaði. Hún reyndi að flýja þegar hún varð vör við lögregluna en missti fótanna og féll fram fyrir sig. Þá sýndi hún mikinn mótþróa við handtökuna.
Maðurinn skýrði lögreglu frá því að hann hefði lokið sambandi þeirra í maí í fyrra og ekki heyrt í henni síðan. Hann gaf þá ástæðu fyrir sambandsslitunum að konan væri „klikkuð“.