Gríðarlegt magn af parmesan- og Grana Padano-osti eyðilagðist í jarðskjálftunum á Ítalíu í nótt. Er tjónið metið á um 250 milljónir evra, 40,7 milljarða króna.
Samkvæmt upplýsingum frá samtökum ostaframleiðenda eyðilögðust mörg vöruhús sem osturinn er geymdur í en mesta mildi þykir að ekkert manntjón varð í vöruhúsunum því hver ostahilla er mjög þung. Framleiðsluferli á parmesan-osti, sem er talinn konungur ítölsku ostanna, er mjög langt en osturinn er geymdur á tréhillum í 1-3 ár áður en hann er tilbúinn til sölu.