„Sérðu mig núna?“ spurðu naktir hjólreiðamenn sem hjóluðu mörg hundruð um götur til að vekja athygli á öryggismálum hjólreiðamanna. Slagorðið máluðu þeir á líkama sína. Þeir vildu einnig með þessum hætti vekja athygli á þeirri hollu hreyfingu sem hjólreiðar eru og hversu umhverfisvænn slíkur ferðamáti er.
Þessi óvenjulega samkoma átti sér stað í mexíkósku borginni Puebla í gær. Hópurinn safnaðist fyrir á fjölförnustu götu bæjarins, um 120 kílómetrum frá Mexíkóborg.
„Við viljum breytingar,“ sagði Arturo Rivera, einn þátttakenda.
Sumar konurnar voru í bikiníum en flestallir karlmennirnir ákváðu að vera allsnaktir er þeir hjóluðu um borgina í rigningunni.
Viðburðurinn tengist hreyfingu sem kallar sig World Naked Bike Ride og hefur staðið fyrir álíka viðburðum víðar um heiminn.
Í Mexíkó var ákveðið að taka þátt til að vekja athygli á bágu öryggi hjólreiðamanna í umferðinni þar í landi. Tveir hjólreiðamenn létu lífið í umferðarslysum nýverið.