Kona sem vann eina milljón dollara í lottói fannst látin á heimili sínu í Michigan í Bandaríkjunum. Konan vakti mikla athygli þegar upplýst var að hún hefði haldið áfram að þiggja matargjafir eftir að hún fékk vinninginn.
Ekki er ljóst hvers vegna Amanda Clayton lést. Rannsókn stendur yfir, en grunur leikur á að of stór lyfjaskammtur hafi valdið dauða hennar.
Clayton vann fyrir ári síðan eina milljón dollara í lottó. ABC News sagði frá því á þessu ári að hún hefði haldið áfram að þiggja matarmiða sem svara 200 dollurum á mánuði þrátt fyrir að eiga næga peninga.
Bill Schuette, dómsmálaráðherra Michigan, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum eftir að fréttin birtist að þetta væri fráleitt og tryggja yrði að skattpeningum almennings væri ekki varið að styrkja þá sem ekki þyrftu á styrk að halda. Clayton var síðar ákærð fyrir bótasvik.