Tíu ára gamalli sænskri stúlku var gert að yfirgefa rútu á miðjum vegi í skógi um 20 km frá heimili sínu af því að hún var með ógildan rútupassa. Foreldrar stúlkunnar eru afar ósáttir við vinnubrögð bílstjórans.
Hin 10 ára gamla Moa Abrahamsson segir í viðtali við Hela Hälsingland að bílstjórinn hafi sagt við sig „þú þarft að fara út hér“.
Fjallað er um málið á vefnum The Local. Þar segir að stúlkan hafi verið á leiðinni heim til föður síns að loknum skóla, sem hún sækir í Mohed, þegar bílstjórinn bað hana um að koma til sín. Við það stöðvaði hann rútuna við vegkantinn.
„Hann spurði mig hvort kortið mitt gilti fyrir ferðalög innan sveitarfélagsins. Ég var svo hissa að ég svaraði einfaldlega „já“ og þá sagði hann „þú ferð út hér,“ segir Abrahamsson.
Hún hlýddi bílstjóranum sem ók síðan af stað. Hún stóð eftir alein á miðjum vegi. Hún gat hins vegar hringt í föður sinn sem gat farið úr vinnunni til að sækja dóttur sína.
Foreldrar stúlkunnar búa á sitthvorum staðnum. Faðir hennar býr í Bollnäs en móðir hennar í Söderhamn. Stúlkan segist oft hafa ferðast á milli skólans og heimila foreldra sinna og alltaf án vandræða.
„Það eru engar takmarkanir merktar á passann og okkur var sagt að hann gilti alls staðar í Hälsingland sýslu,“ segir Jakob Abrahamsson í samtali við Hela Hälsingland.
Linda Salén, framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins KR Trafik, harmar atburðinn. „Að sjálfsögðu eiga bílstjórar ekki að hegða sér svona,“ segir hún. Er málið til skoðunar.
Stúlkan segir aftur á móti að hún vilji ekki sitja í rútu þar sem sami bílstjóri er á bak við stýrið.