Bæjarstjórinn í smábænum Lheraule í sýslunni Oise í Picardyhéraði í Frakklandi hefur fengið samþykktar reglur sem skylda fólk að sýna af sér kurteisi í ráðhúsi bæjarins.
Ekki voru það stórvægileg vandamál sem leiddu til þess að Gerard Plee bæjarstjóri fékk reglurnar settar. Hann kveðst á bæjarstjóratíð sinni aðeins hafa fyrirhitt einn dóna í ráðhúsinu um dagana. „En það var einum of mikið,“ segir hann.
„Hefði ég ekki fengið reglurnar samþykktar hefði ég ekki getað haft nein betrumbætandi áhrif á fólk af þessu sauðahúsi,“ bætir Plee við.
Á útivegg ráðhússins er nú tilkynning sem upplýsir gesti þess um kurteisisreglurnar. Nefnt er sem dæmi, að noti menn ekki ávörp eins og góðan daginn, takk fyrir eða gjörið svo vel verði þeir beðnir samstundis um að yfirgefa bygginguna.
Plee bæjarstjóri segir að íbúarnir hafi tekið reglunum vel, þar hafi þær hvorki mætt gagnrýni né verið fagnað sérstaklega. Málið hefur vakið mikla athygli í Frakklandi og hefur Plee vart haft undan að veita fjölmiðlum viðtöl. Er smábærinn Lheraule því á margra vörum um þessar mundir.