Jólakort frá þýskum hermönnum sem hernámu Ermarsundseyjuna Jersey hafa loksins verið borin út, 71 ári eftir að þau voru skrifuð. Kortunum var upphaflega stolið af ungum eyjarskeggjum árið 1941 sem ögrun við nasista. Þau komu aftur í leitirnar árið 2006, en sögusafn Jersey tók þá við þeim og skrásetti. Nú þegar þeirri vinnu er lokið var ákveðið að senda jólakortin til viðtakenda sinna í Þýskalandi. Þetta kemur fram í frétt thelocal.de
Einn af viðtakendum er Engelbert Josef Bergmann, sem býr í Mühlheim am Main í Hesse. Í jólakortinu, sem sent var á afa hans stóð einfaldlega „Gleðileg jól og óskir um heilbrigði á nýju ári, Emil Adam, óbreyttur. Kveðjur til Maier, Fischer og Melcher.“ Bergmann sagðist hafa fundið til léttis eftir að hafa lesið kveðjuna og að hann myndi koma kveðjunum í jólakortinu til skila.
Póstþjónusta Þýskalands hefur tilkynnt að sumum af jólakortunum hafi verið hafnað af viðtakendum, sem hafi óttast að í jólakortunum myndi koma fram heitur stuðningur við Nasistaflokkinn. 86 jólakortum var stolið á sínum tíma.