Mynd sem prýðir peningaseðla sem seðlabanki Kanada gaf nýlega út sýnir ekki laufblað af kanadískum hlyn, þjóðarblómi Kanada, heldur sýnir hún laufblað af norskum hlyn.
Seðlabanki Kanada hefur sagt að myndin af laufblaðinu hafi verið „færð í stílinn“ í samráði við grasafræðing.
Sean Blaney, sem er virtur grasafræðingur í Kanada, segist telja þessa skýringu ótrúverðuga og menn séu greinilega að finna einhverja skýringu eftir á.
Norskur hlynur er algengt tré í mið- og austurhluta Kanada. Það barst til Kanada frá Evrópu. Blaney segir að þetta sé því innflutt jurt í Kanada. Það sé hægt að ruglast á norskum hlyn og kanadískum hlyn sem er þjóðarblóm landsins og prýðir m.a. fána Kanada.
Seðlabanki Kanada hefur áður sætt gagnrýni þegar hann hefur verið að gefa út peningaseðla. Í ágúst baðst bankinn afsökunar á því að hafa fjarlægt mynd af konu með „asískt útlit“ af 100 dollara seðli sem búið var að hanna.
Einnig hefur verið gagnrýnt að sumir peningaseðlar virka ekki í sjálfsala sem taka við seðlum.