Æskuljómi franskra kvenna fölnar hægar en hjá breskum því þær fyrrnefndu virðast sjö árum yngri þegar þær standa á fertugu, samkvæmt niðurstöðum breskrar rannsóknar.
Þessu eiga breskar konur erfitt með að andmæla því þar í landi var rannsóknin gerð. Og þær bresku þóttust hafa skýringuna á hreinu; franskar konur byrjuðu að nota húðkrem og smyrsl að meðaltali fimm árum fyrr.
Þátttakendur fengu myndir af frönskum konum og voru beðnir að geta sér til um aldur þeirra. Stjórnmálakonan Segolene Royal, sem er 59 ára, var talin 12 árum yngri og kvikmyndaleikkonan Catherine Deneuve, sem er 69 ára, var talin 10 árum yngri en í raun. Þá var hin 49 ára gamla leikkona Juliette Binoche talin vera 41 árs.
Níu breskar konur af hverjum tíu sem í rannsókninni tóku sögðu það húðkremum að þakka að æskublómi franskra kvenna ljómar lengur en þeirra. Hermt er að þriðjungur franskra kvenna byrji að nota kremin að staðaldri við 15 ára aldur og um tvítugt brúki tveir þriðju þeirra sérhæfð krem sem eiga að vinna gegn öldrun; yngingarkrem.
Breskar konur bíða aftur á móti með að krema sig með þessum hætti uns þær ná 25 ára aldri og jafnvel þá myndi aðeins helmingur þeirra nota yngingarkrem reglulega. „Breskar konur byrja yfirleitt ekki að nota yngingarkrem fyrr en þær sjá fyrstu merki öldrunar. Það getur verið of seint og viðbrögðin ónóg,“ segir Emma Leslie hjá húðsnyrtisíðunni escentual.com
Franskir neytendur verja meira til yngingarmeðala en í nokkru öðru Evrópuríki. Árið 2009 vörðu Frakkar sem nemur 357 milljörðum króna í andlitskrem alls konar. Breskar konur voru ekki hálfdrættingar á við þær frönsku, vörðu 160 milljörðum króna í húðkremin.