Indverskur kaupsýslumaður hefur verið handtekinn fyrir að leyfa níu ára gömlum syni sínum að aka sportbíl. Faðirinn tók atvikið upp og setti myndskeiðið á YouTube.
Lögreglan á Indlandi segir að Mohammed Nisham, sem er búsettur í Kerala-ríki í suðurhluta landsins, hafi birt 88 sekúndna langt myndskeið á síðunni þar sem drengurinn sést aka sportbifreið af gerðinni Ferrari F430. Fimm ára gamall bróðir drengsins sést jafnframt sitja í farþegasætinu.
Lögreglumaðurinn Biju Kumar segir að tölvudeild lögreglunnar hafi gert mönnum viðvart og var Nisham handtekinn og yfirheyrður í tengslum við málið. Hann viðurkenndi að hafa hvatt son sinn til að aka bifreiðinni, en atvikið átti sér stað 6. apríl sl. í Peramangalam.
Faðirinn hefur verið ákærður fyrir athæfið.
Árið 2011 létust 131.834 í umferðarslysum á Indlandi, að því er fram kemur í opinberum gögnum.