Mildi þykir að ekki fór verr þegar tveir hollenskir bræður, fimm og sjö ára, stálust í bíltúr á bíl ömmu sinnar og keyrðu á staur eftir 1,5 km ferðalag.
„Lögreglumaður í hefðbundinni eftirlitsferð sá bílinn uppi á gangstétt, dyrnar opnar og tvo unga stráka standa við hlið hans,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Bloemendaal. „Eldri drengurinn sagði lögreglunni að hann hefði ekið bílnum um einn og hálfan kílómetra, keyrt á staur og numið staðar.“ Sagði hann við lögregluna að hann hefði þó verið í belti og bróðir hans í bílstól.
Farið var með þá bræður á lögreglustöð og rætt við þá. „Þeir voru síðan sóttir en sem betur fer voru þeir báðir ómeiddir,“ sagði talsmaðurinn. Aftur á móti væri tjónið á bílnum og staurnum umtalsvert.