Hið umdeilda kaffihús SoldatenKaffe, sem skreytt var í anda nasisma, verður opnað að nýju í dag eftir stílfæringar. Að sögn eigandans hefur þemað verið útvíkkað og er nú meira í anda Seinni heimsstyrjaldarinnar almennt - og hakakrossarnir hafa verið teknir niður.
Kaffihúsinu var snarlega lokað á föstudaginn í kjölfar morðhótanna sem eigandanum Henry Mulyana barst. Hann hefur verið sakaður um að kynda undir kynþáttahatri með því að gera nasistum hátt undir höfði á kaffihúsinu, í borginni Bandung á eyjunni Jövu.
Þegar það opnaði árið 2011 var kaffihúsið m.a. skreytt með gasgrímum, hakakrossfánum og portrett mynd af Adolf Hitler. Þjónarnir klæddust nasistabúningum og gestir gátu gætt sér á snitsel og þýskum bjór.
Staðurinn var rekinn í tvö ár án athugasemda, en eftir að enska dagblaðið Jakarta Globe fjallaði um hann varð allt vitlaust.
Eigandinn segist nú hafa brugðist við kvörtunum, og hótunum, og tekið niður hakakrossana. Ennþá verður mynd af Hitler á veggnum en honum til samlætis verða m.a. Winston Churchill, japanskir og þýskir hermenn og indónesískar þjóðhetjur.
„Yfirvöld sögðu að hakakrossarnir væru of sláandi, auðkennandi og sjáanlegir, þannig að við höfum samþykkt að taka þá niður,“ segir Mulyana.
„Ég hef fengið endalaus símtöl og líflátshótanir bæði frá heimamönnum og útlendingum. Ég er miður mín og í áfalli.“
Nasistakaffihúsið vekur viðbjóð