Síðastliðin 45 ár hefur Edward Smith átt tæplega þúsund elskhuga. Aðeins einn þeirra var manneskja, hinir voru allir bílar. Hinn 62 ára gamli Smith laðast nefnilega kynferðislega að vélum. Meðal elskhuganna hafa verið Mustang bifreiðar, glæsilegir jeppar og jafnvel þyrlur.
„Sumir horfa á brjóst og rassa fallegra kvenna,“ segir Smith í samtali við Mirror. „Ég horfi á fram- og afturendann á fallegum bílum.“
Smith heillaðist fyrst af vélum á unglingsárunum og naut hann ásta með að minnsta kosti einu farartæki á viku. En nú hefur hann ákveðið að festa rætur og njóta aðeins ásta með einni bifreið, Volkswagen bjöllunni Vanillu sem hann keypti fyrir 30 árum. Sambandið er þó opið og því er hann einnig í sambandi við bíl sem ber nafnið Kanill og Ford bifreiðinni Skvettu.
Vanilla er þó hin eina sanna og fer Smith meðal annars með henni í lautarferðir. „Þegar ég held Vanillu í örmum mér, finn ég kraftmikla orku frá henni,“ segir hann. „Ég myndi segja að þetta sé mjög ánægjulegt, en stundum dálítið þunglyndislegt þar sem ég veit að hún getur ekki talað við mig. En þrátt fyrir allt, þá veit ég að hún finnur það sem ég finn og það er tilfinningaríkt.“ Hann leggur áherslu á að ef eitthvað kæmi fyrir Vanillu yrði hann niðurbrotinn.
Smith hefur þó ekki alltaf verið jafn opinn um ástarsamband sitt við bifreiðar og reyndist honum erfitt að skilgreina tilfinningar sínar á unglingsaldri. Hann man eftir því að hafa fyrst faðmað og kysst Aston Martin, bíl James Bond, sem unglingur áður en hann missti loks sveindóminn með Volkswagen bíl nágrannans. „Ég veit að sumum gæti fundist þetta skrýtið, en það er mikið af skrýtnum hlutum í þessum heimi. Ég er ekki að særa neinn með þessu og ég hyggst ekki særa neinn.“
Smith hefur aðeins sofið hjá einni konu en það hafði ekki mikil áhrif á hann. „Ég neita því ekki að ég upplifi stundum gamlar langanir og þrár þegar ég horfi á aðra bíla í sjónvarpinu. En nú vil ég festa rætur með Vanillu,“ segir hann. „Það er eitthvað við hana sem ég get ekki fullkomlega tjáð.“